256 - Ótrúlega hraðar Mac tölvur og endurkoma 737 Max

Atli fjallar um iPhone 12 mini og Watch SE með LTE-sambandi sem hann hefur verið að prófa. Síminn er með talsvert lakari rafhlöðuendingu en hinir símarnir sem voru að koma út og munu ekki henta kröfuhörðum. Apple Watch SE með LTE er nokkuð góður díll þannig séð þar sem það sem þú færð ekki hefur ekki það mikil áhrif á upplifun. 

Axel undirbýr sig fyrir jólin, því þau koma snemma í ár þar sem Playstation 5 afhendist í vikunni. Nokkrir í hópnum náðu að forpanta og ætla að sökkva sér í spilun um helgina.

Boeing 737 Max flugvélarnar hafa fengið grænt ljós frá bandarískum yfirvöldum (FAA) eftir  20 mánaða kyrrsetningu. Mynduð þið fljúga með 737 max strax og C19 hjaðnar?

Instagram hefur uppfært viðmót sitt og það eru flestir að hata það. Reels er komið í miðjuna neðst og plús takkinn færður upp. Það er greinilega verið að leggja áherslu á Reels, sem er svar Instagram við Tik tok.

Twitter uppfærði sig líka og býður nú upp á Fleets sem eru sjálfeyðandi tíst með 24 tíma niðurtalningu, sem mörg kalla “Twitter Stories”. 

Forstjórar Facebook og Twitter voru kallaðir á teppið til öldungadeildarþings Bandaríkjanna eftir hegðun þeirra gagnvart stjórnmálafólk á miðlum sínum á kosningatímum. 

Parler samfélagsmiðillinn hefur allt í einu náð velgengni eftir að hafa fengið rólega byrjun frá 2018 og nú streyma inn íhaldssamir til að flýja “ritskoðun” Facebook og Twitter. 

Big Sur Mac OS uppfærslan er komin út og við ætlum ekki að uppfæra. Einhverjir orðrómar eru um að eldri Macbook tölvur stoppi í miðri uppfærslu en það virðist mögulega vera skortur á þolinmæði. Þetta er stór útlitsuppfærsla og ekki allar góðar. Forritatáknin eru til dæmis forljót.

Ótrúlega margar umfjallanir skullu á YouTube í vikunni þegar fjölmiðlabanni Apple á nýjum Mac tölvum var aflétt. Dómar eru nær einróma: þetta eru fáranlega góðar tölvur. Hraðar og með langa rafhlöðuendingu. Macbook Air með M1 örgjörva nær svipuðum afköstum og Macbook Pro 16 með Intel örgjörva (sem er tvöfalt dýrari tölva). Macbook fer létt með 4K myndbandsklippingar og getur loksins spilað tölvuleiki almennilega.

Magsafe Duo hleðslubretti er að detta í sölu og þarf 27w hleðslukubb til að ná fullum afköstum við hleðslu. Heildarverðið á Magsafe Duo með hleðslukubb er því 180 USD eða um 36 þúsund krónur á Íslandi áætlað. Það er alltof mikið.

Apple mun bjóða fyrirtækjum sem þéna minna en 1 milljón USD í App store lægri umboðslaun frá 1. janúar næstkomandi, eða 15% í stað 30%. Góðar fréttir fyrir litla aðila en ekki svo góðar fyrir Epic. 

Stjórnendur í þætti 256 eru Atli Stefán, Axel Paul og Kristján Thors.

linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram